*

föstudagur, 3. júlí 2020
Erlent 1. júní 2020 16:00

Betri tíð framundan í Evrópu

Veirufaraldurinn virðist hins vegar enn hafa umtalsverð áhrif í Asíu en lönd þar eystra virðast eiga erfiðara með að rétta úr kútnum.

Ritstjórn
Það eru helst framleiðendur heilbrigðisvarnings sem hafa notið góðs af faraldrinum.
epa

Hið versta gæti verið afstaðið fyrir framleiðendur í Evrópu. Veirufaraldurinn virðist hins vegar enn hafa umtalsverð áhrif í Asíu en lönd þar eystra virðast eiga erfiðara með að rétta úr kútnum. Sagt er frá á vef Reuters.

Sem kunnugt er hefur ferð kórónaveirunnar um jarðkringluna haft gífurleg áhrif á vinnustaði og ferðalög jarðarbúa. Víða hvar hafa samkomuhömlur haft þær afleiðingar að vinnustöðum hefur verið lokað tímabundið og birgðakeðjur heimsins hafa riðlast gífurlega. 

Upplýsingar frá verksmiðjum og framleiðendum í Evrópu sýna að síðasti mánuður hafi verið fjarri því að vera góður en hann var þó skárri en apríl var. Það virðist því horfa til betri vegar. 

„Það lá fyrir - sérstaklega á evrusvæðinu - að apríl yrði líklega botninn á kúrfunni. Vonandi erum við komin yfir versta hjallann,“ segir Peter Dixon hjá Commerzbank við Reuters. 

Tölur frá Bandaríkjunum hafa ekki skilað sér en búist er við því að annan mánuðinn í röð verði þar samdráttur í framleiðslu. Í Asíu er staðan einnig erfið að Kína undanskildu en þar tók framleiðsla við sér í síðasta mánuði. Helstu útflutningslönd Kína eru hins vegar mörg hver enn að glíma við afleiðingar veirunnar og því gengur illa að koma vörum frá landinu. Útflutningur Japans og Suður-Kóreu féll síðan talsvert í mánuðinum og var um skörpustu dýfu frá árinu 2009 að ræða.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sagði í síðasta mánuði að viðbúið væri að hagkerfi heimsins yrðu talsvert lengi að ná sér eftir faraldurinn og lengur en fyrstu spár gerðu ráð fyrir. Gildandi spá sjóðsins gerir ráð fyrir 3% samdrætti á árinu en viðbúið er að sú spá muni lækka.