*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Innlent 16. janúar 2021 11:05

Betri tíð fyrir stóriðju og Landsvirkjun

Verð á ál og kísli hefur hækkað skarpt sem skilar sér í bættum hag fyrir íslenska stóriðju og orkufyrirtæki.

Ingvar Haraldsson
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Haraldur Guðjónsson

Álverð hefur ekki verið hærra í ríflega tvö ár og stendur nú í um 2.000 dollurum á tonnið eftir að hafa lægst farið undir 1.500 dollara í vor.  Verð á kísil hefur einnig hækkað sem og verð á norræna raforkumarkaðnum Nord Pool. Þetta hefur umtalsverð áhrif á íslenskt efnahagslíf, bæði fyrir stóriðjuna og raforkufyrirtækin.

Álverin veltu alls um 210 milljörðum króna árið 2019 en skiluðu samanlagt mettapi. Stór hluti raforkusamninga álveranna er tengdur álverði. Alcoa á Reyðarfirði kaupir um þriðjung af raforku Landsvirkjunar en verðið í þeim samningi er beintengt verðbreytingum á áli. Hið sama á við um raforkusölu Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku til álvers Norðuráls á Grundartanga, en fyrirtækin tvö sjá álverinu fyrir um tveimur þriðju af raforkunotkun þess.

„Það styrkir alla eftirspurn okkar viðskiptavina að verðin séu að hækka og hagkerfin að taka við sér,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, um hækkun á verði á áli, kísil og verðs á Nord Pool markaðnum. Væntingar um bætta stöðu í heimsbúskapnum á árinu er talin ein helsta ástæða verðhækkana á málmum. Þá bendir Hörður á að lækkun vaxta hafi haft í för með sér að fjárfesting beint í málmum á borð við ál hafi aukist.

Skörp hækkun á Norðurlöndunum

Á norræna raforkumarkaðnum Nord Pool  er verð nú fjórfalt hærra en það var að meðaltali á síðasta ári.  Nú stendur verð á markaðnum í um 40 evrum á megavattstund sem samsvarar um 49 dollurum en meðalverð síðasta árs var 10 evrur á megavattstund, eða um 12 dollarar, sem var það langlægsta í sögunni. Verðið sem Norðurál greiðir Landsvirkjun fyrir um þriðjung raforkunnar til álversins á Grundartanga er tengt verðþróun á Nord Pool. Sá samningur tók gildi í nóvember 2019 og gildir til ársins 2023. 

Í september sagði  Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, við Fréttablaðið, að félagið væri tilbúið að fjárfesta fyrir um 14 milljarða króna í stækkun álversins væri Landsvirkjun tilbúið að semja um raforkuverð upp á 23 dollara á megavattstund, sem var meðalverð fyrirtækisins til stóriðju árið 2019. Landsvirkjun hefur slegið það verð út af borðinu og sagt það vera undir kostnaðarverði. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér