Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til næstu 25 ára, svokallað Masterplan, var kynnt fyrr í vikunni. Í þeim spám sem áætlunin byggir á er gert ráð fyrir að farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgi úr 4,5 milljónum í ár í tæplega 14 milljónir árið 2014. Til að mæta þessari fjölgun er áætlað að stækka Leifsstöð verulega, bæta við hliðum í flugstöðinni, stækka flughlað og jafnvel að leggja nýja flugbraut.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er gert ráð fyrir að framkvæmdir samkvæmt fyrsta áfanga þróunaráætlunarinnar geti hafist í lok næsta árs eða í byrjun árs 2017. Þá verður hafist handa við að stækka flugstöðina til norðurs og bæta við flugvallarstæðum til austurs. Ekki er búið að taka ákvörðun um það hvort fyrsta áfanga áætlunarinnar verður skipt í nokkur skref.

Spurning með fjármögnunina

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að honum virðist þróunaráætlunin sem kynnt var í vikunni vera mun kraftmeiri heldur en áætlun sem kynnt var fyrr á þessu ári. Við fyrstu sýn líst honum mun betur á nýju tillögurnar heldur en þær fyrri. „Vissulega virðist manni að það sé fullur vilji hjá forráðamönnum Isavia að reyna að bregðast við þeirri umræðu og þeim augljósu kröfum sem eru uppi um að bæta og styrkja aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli," segir Grímur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .