Eftir langt tímabil uppkaupa og samþættingar horfa stjórnendur Össurar til þess að rekstrarniðurstaða félagsins fari að breytast til batnaðar og hagnaður félagsins aukist. Þrátt fyrir að tekjur félagsins séu traustar hefur félagið sogast niður með öðrum kauphallarfélögum og nú er svo komið að erlendir fjárfestar ráða yfir um það bil 40% af hlutafé félagsins.

Össur er eitt þeirra fyrirtækja sem Íslendingum er tamt að nefna með stolti og það hefur verið hlaðið lofi og verðlaunum í gegnum tíðina. Eigi að síður virðist sem furðu hljótt hafi verið um starfsemi þess undanfarið – að hluta til skýrist það af vandamálum þeim sem ganga yfir íslenskan hlutabréfamarkað og flestir eru uppteknir af.

Um leið hefur eignarhald á félaginu verið að færast til erlendra fjárfesta sem eiga nú um það bil 40% af hlutafé félagsins. Þar eru Danir fremstir í flokki en stærsti hluthafinn er danski fjárfestingarsjóðurinn William Demant Invest A/S sem er með ríflega 34% hlutafjár.

„Svo virðist sem uppbyggingarstefna Össurar henti betur erlendum fjárfestum en íslenskum,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar en í helgarblaði Viðskiptablaðsins er ítarlegt viðtal við Jón.

Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .