*

mánudagur, 27. september 2021
Erlent 11. júlí 2021 17:11

Better sækir á breska markaðinn

Better Mortgage, sem mun sameinast Spac félagi Björgólfs Thors, hefur náð samkomulagi um kaup á breska fyrirtækinu Trussle.

Ritstjórn
Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður og stærsti hluthafi Aurora Acquisitions, og Sigurgeir Jónsson, yfirmaður fjármálamarkaða hjá Better.

Better Mortgage, sem mun sameinast sérhæfðu yfirtökufélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar, er við það að kaupa breska húsnæðislánafyrirtækið Trussle á „niðursettu verði“, samkvæmt Financial Times. Um er að ræða fyrstu sókn bandaríska félagsins Better á erlenda markaði. 

Samkomulagið verðmetur Trussle á tæplega níu milljónir dala, eða um 1,1 milljarð króna. Trussle, stofnað árið 2015, safnaði 26,7 milljónum dala í fjármögnunarlotu í byrjun síðasta árs. Á meðal fjárfesta Trussle eru Goldman Sachs, sem greiddi á sínum tíma 8 milljónir punda fyrir 20% hlut í fyrirtækinu, og hollenski vogunarsjóðurinn Finch Capital.

Trussle hefur þróað hugbúnað með það að markmiði að brjóta niður yfirráð hefðbundna veðlánafyrirtækja á breska húsnæðismarkaðnum. Fyrirtækið er þó enn í taprekstri og var með neikvætt eigið fé í árslok 2019. Tekjur félagsins námu 2 milljónum punda árið 2019.  

Með kaupunum er Better segt vera að veðja á getu sína til að keppa við ríkjandi fyrirtæki á 1,500 milljarða dala húsnæðislánamarkaðnum í Bretlandi. Á síðasta ári veitti Better alls lán að andvirði 24 milljarða dala, samanborið við 5 milljarða dala árið áður.  

Sjá einnig: Novator kaupir í Better fyrir 25 milljarða

Stefnt er að því að sérhæfða yfirtökufélagið (Spac) Aurora Acquisition muni sameinast Better Morgage á fjórða ársfjórðungi. Aurora lauk frumútboði í mars þar sem félagið safnaði 323 milljónum dala eða sem nemur 37,5 milljörðum króna. Björgólfur Thor er stjórnarformaður Aurora og stærsti hluthafi þess með um 16% hlut í gegnum Novator Capital.

Björgólfur er ekki eini Íslendingurinn sem kemur að Better en Sigurgeir Jónsson er yfirmaður fjármálamarkaða hjá Better og kom að stofnun félagsins. Sigurjón og og Björgólfur eru frændur.