Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, er öllum hnútum kunnug þegar kemur að fjárlagafrumvarpagerð, enda starfaði hún um árabil sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2022 er það fyrsta sem hún á ekki aðkomu að frá árinu 2013. Hún segir vissulega viðbrigði, en jafnframt skemmtilegt, að upplifa það að sitja hinum megin við borðið og rýna í fjárlög sem hún átti enga aðkomu að.

„Bestu tíðindin sem felast í þessu fjárlagafrumvarpi er að útlitið er mun betra en nokkur hafði þorað að vona. Í fjármálaáætlun var gert ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs gæti orðið 42% af landsframleiðslu í lok árs 2022 en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður skuldahlutfallið 34%, sem er óneitanlega mun betra. Salan á Íslandsbanka gekk vel og það er jákvætt að sjá að því sé lýst yfir í fjármálaáætlun að stefnt sé á að haldið verði áfram að losa um hlut ríkissjóðs í bankanum."

Svanhildur bendir á að þrátt fyrir að útlitið sé betra hvað skuldsetningu og hallarekstur ríkissjóðs varðar, sé hallarekstur ekki ákjósanleg staða til að vera í. „Fjármagnskostnaður ríkisins virðist ætla að vaxa um 46 milljarða króna frá 2019 til 2022. Þar að auki má sjá aukningu útgjalda umfram laun og verðlag í fjárlagafrumvarpinu. Þegar rammi fjármálaáætlunar er borinn saman við ramma fjárlagafrumvarpsins má sjá að fyrir utan laun og verðlagsbætur nemur útgjaldaaukning tæpum 2%. Það er því aðeins verið að bæta í útgjöld frá fjármálaáætlun."

Óneitanlega leiti hugurinn til þess hvaða áhrif þetta muni hafa í því umhverfi sem hagkerfi Íslands er í, þar sem verðbólguþrýstingur er mikill og vextir fari hækkandi. „Það má velta fyrir sér hvort nokkur þörf sé á þessum slaka í ríkisfjármálastefnunni á þessum tímapunkti," segir Svanhildur.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að tímabundin lækkun almenna tryggingagjaldsins um 0,25 prósentur, sem var hluti af aðgerðum haustið 2020 til að tryggja að kjarasamningar héldu, gangi til baka í árslok 2021 og álagningarhlutfallið fari því aftur upp í 6,35%. Áætlað er að tekjur ríkisins af tryggingagjaldinu hækki úr 94 milljörðum, sem áætlaðir voru í fjárlögum 2021, í 107 milljarða á næsta ári sem skýrist einnig af stærri launastofni.

Svanhildur segir vissulega vonbrigði að tryggingagjaldið hækki. „Okkar aðildarfélagar hafa kallað eftir því að tryggingagjaldið haldi áfram að lækka. Atvinnurekendur voru fullmeðvitaðir um að lagt var upp með að þetta væri tímabundin aðgerð, en þeim finnst samt mörgum hverjum full ástæða til að aðgerðin fái lengri líftíma. Þó að það gangi vel í sumum atvinnugreinum hafa alls ekki allar greinar jafnað sig af neikvæðum áhrifum faraldursins. Það hefði því mátt lengja í þessu úrræði, sérstaklega í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni aukast vegna aukinna umsvifa í atvinnulífinu."

Ekki gert ráð fyrir stuðningsaðgerðum

Í fjárlagafrumvarpi segir að áætlað umfang tímabundinna ráðstafanna vegna heimsfaraldursins árið 2022 sé talsvert minna en á árunum 2020 til 2021, er þær námu nærri 215 milljörðum króna. Umfang þeirra árið 2022 samanstandi aðallega af áframhaldi á fjárfestingaátaki stjórnvalda. Svanhildur kveðst þó gera ráð fyrir að þessar forsendur gætu tekið breytingum, miðað við stöðu heimsfaraldursins í dag.

„Miðað við hvað staða faraldursins virðist hafa breyst á undanförnum dögum með nýju afbrigði veirunnar, þarf að varast að verða of bjartsýn fyrir næsta ári," segir Svanhildur.

„Stjórnvöld hafa sýnt það í gegnum faraldurinn að þau eru tiltölulega fljót að bregðast við þegar aðstæður kalla eftir því. Það má því gera ráð fyrir að þótt frumvarpið geri ráð fyrir að þessar aðgerðir hafi runnið sitt skeið muni stjórnvöld taka nýjar ákvarðanir ef aðstæður krefjast."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .