Betware og STL (Sistemas Tecnicos de Loterias del Estado) sem er fyrirtæki í 100% eigu Spænska ríkislottósins hafa undirritað samning þess efnis að Betware verði þjónustuaðili STL á sviði gagnvirkra leikja. Spænska ríkislottóið vill þróa leikjaframboð sitt þannig að viðskiptavinir geti tekið þátt í leikjum á Internetinu, farsímum og gagnvirku sjónvarpi að því er segir í tilkynningu.

Í tilkynningu kemur fram að vegna mikillrar reynslu Betware af þróun slíkra leikja leitaði STL til Betware um samstarf og niðurstaðan varð að Betware er orðið aðal þjónustuaðili STL hvað snertir nýja miðla. Allir núverandi leikir sem STL býður verða fluttir yfir í kerfi Betware.

?Betware hefur á að skipa öflugum grunni sem hægt er að byggja á,? segir Alfonso P. Fernandez hjá STL. ?Lausnin er sveigjanleg þannig að hægt er að bæta við nýjum leikjum á skömmum tíma. Þetta gerir okkur kleift að bæta framboð okkar á Internetinu og auka þannig samkeppnisstöðu okkar á spænska leikjamarkaðinum.?

Samningurinn við STL skiptir miklu máli fyrir Betware þar sem um er að ræða eitt stærsta ríkislottó í heimi. Árið 2005 var spænska ríkislottóið það stærsta í heimi með 11 milljarða dollara í sölutekjur sem er nálægt 13 % af heildarsölu allra lottómiða í Evrópu. Í tilkynningu segir að með þessum samningi sé Betware komið á kortið sem verðugur keppinautur á þessum markaði. Í kjölfar samningsins mun Betware stækka um a.m.k. helming.

Betware er íslenskt hugbúnaðar- og þjónustufyrirtæki stofnað árið 1998. Betware sérhæfir sig í gerð tæknilausna fyrir ríkislottó og er brautryðjandi á þessu sviði. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Reykjavík en auk þess er fyrirtækið með þrjú útibú í Evrópu og Norður-Ameríku. Starfsmenn eru rúmlega 60 í dag en verða væntanlega orðnir um 90 fyrir árslok.