Bandaríska söng- og tónlistarkonan Beyoncé Knowles sló met á iTunes þegar hún gaf út sína nýjustu plötu, Beyoné , á fimmtudaginn í síðustu viku. Enginn önnur plata hefur nefnilega selst í jafn mörgum eintökum á jafn stuttum tíma og plata Beyoncé í netversluninni.

Breska dagblaðið Financial Times segir á vef sínum um plötusöluna að 823.773 eintök hafi selst af þessari nýjustu plötu Beynoncé á aðeins þremur dögum. Þetta er næstum tvöfalt meira en fyrra met hljóðaði upp á. Financial Times segir að til samanburðar hafi plata Taylor Swift, Red, selst í 465 þúsund eintökum fyrstu vikuna hjá ITunes þegar hún kom út í fyrra.

Blaðið fjallar ítarlega um plötusölu á netinu í tengslum við umfjöllun um Beyoncé og hefur eftir sérfræðingi innan tónlistargeirans að líklega muni fáir feta í fótspor söngkonunnar.