*

sunnudagur, 5. desember 2021
Erlent 19. júní 2017 08:29

Bezos gæti orðið ríkastur

Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, nálgast Bill Gates óðfluga í kapphlaupinu um að vera ríkasti maður heims.

Pétur Gunnarsson
Það er nóg til hjá Jeff Bezos.
epa

Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, er nú steinsnar frá því að ná Bill Gates sem ríkasti maður í heimi. Eða, að minnsta kosti á mælikvarða milljarðamæringa. Auðævi Bill Gates eru nú metin á 89,7 milljarða dollara og hefur hagur hans vænkast um 7,34 milljarða á árinu. Aftur á móti hefur hagur Bezos vænkast um 19,3 milljarða, bara á þessu ári og tæpa 2 milljarða dollara á síðustu dögum. Hægt er að kynna sér stöðu milljarðamæringa heimsins á lista Bloomberg fyrir áhugasama. 

Auðæfi Bezos eru metin á 84,6 milljarða dollara og er hann því „einungis“ 5 milljörðum dollara frá því að vera ríkasti maður í heimi. Ástæðan fyrir góðu gengi Bezos er að hlutabréfaverð Amazon hefur hækkað umtalsvert eftir að fyrirtækið tilkynnti að það ætlaði að kaupa Whole Foods dagvörukeðjuna. 

Enn fremur þá er mikill munur á hegðun þeirra Bezos og Gates. Bill Gates hefur á síðastliðnum árum eytt meiri tíma í að gefa fé til góðgerðamála, en Bezos, hefur lagt mesta áherslu á að stækka Amazon. Bill Gates hefur jafnframt lofað því að gefa frá sér helminginn af auðæfum sínum. Hann á þó enn 2% hlut í Microsoft, svo að hann gæti enn haldið áfram að auðgast.