Jeff Bezos mun láta af störfum sem forstjóri Amazon á síðari helmingi ársins og gerast stjórnarformaður þess. Bezos stofnaði Amazon árið 1994 en hann er meðal tveggja ríkustu manna heims, ásamt Elon Musk , í krafti eignarhlutar hans í fyrirtækinu. Andy Jassy, sem stýrir skýjaþjónustu Amazon mun taka við sem forstjóri. Bezos tilkynnti þetta nokkuð óvænt samhliða birtingu uppgjörs félagsins í kvöld.

Breytingarnar marka þáttaskil fyrir Amazon, á sama tíma og fyrirtækið stendur frammi fyrir fjölda stórra áskorana. COVID-19 kreppan hefur haft í för með sér mikinn vöxt í netverslun og annarri stafrænni neyslu. Þá sætir fyrirtækið nokkrum alríkisrannsóknum vegna meintra samkeppnislagabrota, sem gætu jafnvel leitt til þess að endurskipuleggja þurfi reksturinn að því er WSJ greinir frá.

Tekjur félagsins á fjórða ársfjórðungi námu í fyrsta sinn en 100 milljarða dollara á einum ársfjórðungi. Tekjurnar námu 125,56 milljörðum dollara á fjórðungnum, sem samsvarar 44% vexti, auk þess að hagnaður félagsins meira en tvöfaldaðist.