Ríkasti maður heims og stofnandi Amazon, Jeff Bezos, mun fara fyrir þingnefnd í fyrsta skiptið næstkomandi mánudag. Bezos hyggst svara öllum ásökunum sem þingmenn kunna að hafa um starfshætti félagsins en samhliða munu forstjórar Apple, Alphabet sem er móðurfélag Google og Facebook mæta fyrir þing.

Stóru tæknifyrirtækin hafa verið til rannsóknar um dágóðan tíma. Meðal efnis er hvort félögin búi við óeðlilega einokun og hvort hegðun félaganna skaði neytendur eður ei. Niðurstaðan gæti verið aukin löggjöf til að draga úr markaðsafli félaganna.

Í apríl síðastliðinn barst frétt þess efnis að Amazon hafi í gegnum árin misnotað upplýsingar samkeppnisaðila sér í hag. Í kjölfar þess hefur sú krafa að Bezos mæti fyrir þing eflst en vitnisburðurinn fer fram stafrænt. Greint er frá þessu á vef WSJ.

„Við viljum að fólki viti sannleikann um Amazon og hvernig við notum stærðarhagkvæmni okkar til góðs,“ er haft eftir Bezos á síðasta hlutahafafundi í maí áður en hann tilkynnti meðal annars framlag félagsins til loftslagsmála.

Facebook hefur seinkað hálfs árs uppgjöri sínu vegna fundarins og munu félögin fjögur því öll birta uppgjör á fimmtudag næstkomandi.