Ríkasti maður heims, Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, seldi í liðinni viku hluti í Amazon fyrir 3,5 milljarða dollara, um 440 milljarða króna. Bezos hefur áður gefið út að hann stefni á að losa um hlut sinn í Amazon til að fjármagna geimferðafélagið sitt, Blue Origin að því er FT greinir frá.

Til að setja fjárhæðina í samhengi er upphæðin hærri en auður Björgólfs Thors Björgólfssonar, eina Íslendingsins á auðmannalista Forbes, en auður Björgólfs er metinn á 2,3 milljarða dollara, um 290 milljarða króna.

Þrátt fyrir það samsvarar 3,5 milljarðar dollara ekki nema um 3% af eignarhlut Bezos í Amazon, sem er enn stærsti hluthafi félagsins með um 11% hlut.  Í júlí og ágúst 2019 seldi Bezos, einnig hluti í Amazon, þá fyrir 2,8 milljarða dollara, um 350 miljarða króna. Hann hefur því selt hluti í Amazon fyrir tæplega 800 milljarða króna á hálfu ári.

Jeff Bezos og þáverandi eiginkona hans, Mackenzie Bezos, hétu því árið 2018 að gefa 2 milljarða dollara til að aðstoða heimilislausa, fjármagna nýja skóla fyrir nemendur úr tekjulágum fjölskyldum. Hingað til hafa þau nýtt hluti í Amazon, til þess. Bezos og góðgerðafélag hans gáfu hluti í Amazon fyrir 200 milljónir dollara til góðgerðamála í nóvember.