Jeff Bezos, stofnandi netverslunarinnar Amazon og fjórði ríkasti maður heims, seldi á dögunum ríflega eina milljón hluta í Amazon fyrir um 671 milljónir dala, eða um 82,3 milljarða íslenskra króna.

Í frétt Forbes kemur fram að hann hafi selt um 1% af hlut sínum í félaginu, en hann á nú rétt rúmlega 17% hlut í Amazon.

Frá því í janúar í fyrra hefur gengi hlutabréfa Amazon hækkað jafnt og þétt og hefur auður Bezos aukist samhliða því. Á lista Forbes yfir auðugustu menn heims árið 2015 var hann metinn á um 34,8 milljarða dala, en á listanum sem birtur var í mars á þessu ári var auður Bezos talinn nema um 45,2 milljörðum dala. Síðan þá hefur gengi Amazon haldið áfram að hækka og segir í frétt Forbes að líklega megi telja auð Bezos nú um 58,6 milljarða dala.