Auður Jeff Bezos, stofnanda og forstjóra Amazon, hefur aukist um 24 milljarða dollara að undanförnu. Sala Amazon hefur stóraukist frá því að kórónuveiran fór að breiðast út og fólk fór vegna hennar að versla meira á netinu. Hefur það orðið til þess að hlutabréfaverð félagsins hefur rokið upp í hæstu hæðir.

Auðæfi Bezos eru í kjölfar þess metin á um 139 milljarða dollara og festir það Bezos enn betur í sessi sem ríkasti maður heims.

Bezos á 11% hlut í Amazon en líkt og áður segir hafa hlutabréf netverslunarrisans rokið upp vegna aukinnar eftirspurnar. Hefur félagið þurft að ráða þúsundir nýrra starfsmanna til að anna eftirspurn.

Kórónuveiran hafði þó til að byrja með neikvæð áhrif á hlutabréfaverð Amazon og náði það lágmarki þann 9. mars er verð á hlut nam 1785 dollurum. Við lokun markaða í gær var verð á hlut hins vegar komið yfir 2.300 dollara á hlut. Hefur gengið bréfa félagsins því hækkað um 30% frá því að það náði lágpunkti.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum náði Bezos að koma í veg fyrir 317 milljóna dollara tap með því að selja 3% hlut í Amazon áður en hlutabréfaverðið fór að lækka. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Bezos smátt og smátt verið að minnka hlut sinn í félaginu sem hann stofnaði og stýrir, meðal annars til að fjármagna uppbyggingu geimferðafélags síns Blue Origin , og góðgerðarstarfsemi ýmis konar.