Jeff Bezos hefur boðið Nasa, Geimferðastofnun Bandaríkjanna, 2 milljarða dollara, ríflega 250 milljarða króna, gegn því að stofnunin velji fyrirtæki hans til að hanna og þróa geimfar sem ætlað er að koma geimförum aftur á tunglið. Guardian greinir frá.

Nasa veitti SpaceX réttinn til að þróa og hanna geimfar í apríl á þessu ári fyrir um 2,9 milljarða dollara. Ástæðan fyrir valinu á SpaceX á sínum tíma var sögð umfangsmikil reynsla SpaceX af geimferðum og fjármagnsskortur stofnunarinnar.

NASA og SpaceX vonast til að koma geimförum aftur á yfirborð tunglsins árið 2024.

Geimkúrekinn Bezos hefur áður gagnrýnt ákvörðun NASA um að hafa valið SpaceX, geimferðafyrirtæki Elon Musk, til að hanna og þróa geimfar og hvetur hann nú stofnunina til að endurskoða ákvörðunina.

Bezos og fyrirtæki hans Blue Origin eru tilbúin að falla frá greiðslum fyrir allt að tveimur milljörðum dollara á þessu og næsta reikningsári auk þess sem hann býðst til að greiða fyrir prufukeyrslu geimfaranna út í geim gegn því að hann fái samninginn.