Bókaforlagið BF-útgáfa hefur keypt allt hlutafé í barnabókaútgáfunni Ungu ástinni minni . Unga ástin mín var stofnuð árið 2006 af hjónunum Davíð Guðjónssyni og Söru Hlín Hálfdanardóttur og hefur Sara  starfað sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá upphafi. Útgáfan hefur sérhæft sig í útgáfu bóka fyrir yngstu börnin á borð við Fyrstu 100 tölurnar, Fyrstu hundrað dýrin og fleiri bækur.

Fram kemur í tilkynningu að síðastliðin fjögur ár hafi bókaútgáfunni Ungu ástinni minni verið fjarstýrt frá Bretlandi en þangað flutti fjölskyldan búferlum.

Sara Hlín segir ekki ákjósanlegt að fjarstýra fyrirtæki frá öðru landi í langan tíma. Það hafi þó gengið mjög vel framan af enda hún verið lánsöm að vera með frábært starfsfólk í vinnu.

„Við erum með þrjú ung börn og það hefur ekki verið möguleiki fyrir mig að fljúga heim eins oft og þörf hefur verið á. Það var ekki auðvelt að taka þessa ákvörðun en úr varð að ég ákvað að selja til að snúa mér að öðrum verkefnum hér í Bretlandi. Það er auðvitað erfitt að skilja við fyrirtækið en það auðveldar mér að vita að það er komið í góðar hendur hjá BF-útgáfu“, segir Sara í tilkynningunni.