Big Food Group verður fimmta stærsta félagið í einkaeigu á Bretlandi samkvæmt úttekt greiningardeildar Landsbankans. Velta félagsins nemur um 5 milljörðum punda (610 mö.kr.) á ári en áætluð EBITDA framlegð félagsins á þessu ári nemur 129 milljónum punda (16 mö.kr.) Kaupverð BFG er 326 milljónir punda eða 40 ma.kr. og kaupa fjárfestarnir félagið á 95 pens á hlut.

Baugur, ásamt öðrum fjárfestum bæði innlendum og erlendum, gengu frá kaupum á bresku verslunarkeðjunni Big Food Group (BFG) um helgina. Baugur verður stærsti hluthafinn í BFG með 42,9% hlut en auk þess eiga tvö önnur íslensk félög hlut í félaginu en þau eru Burðarás með 11,6% hlut og KB banki með 5,4% hlut.

Upphaflega var búist við því að tilboð Baugs myndi hljóða upp á 110 pens á hlut en lífeyrisskuldbindingar BFG gerðu það að verkum að tilboðið var lækkað. Kaupverð ásamt kostnaði við endurfjármögnun eldri lána og rekstrarfjármögnun vegna birgða og annarra krafna nemur 920 milljónum punda eða 112 mö.kr. Bank of Scotland fjármagnar kaupin að stærstum hluta en Landsbankinn og KB banki sjá um 30% fjármögnunarinnar.

Fjárfestarnir taka við BFG um miðjan febrúar á næsta ári og í framhaldinu mun fara fram endurskipulagning á rekstri BFG og verður félaginu skipt upp í þrjár einingar. Verslunarkeðjurnar Iceland og Booker verða aðskildar en auk þess mun sérstakt rekstrarfélag sjá um fasteignir BFG segir í Vegvísi Landsbankans.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.