BG Partners, félag í eigu B2B (eignarhaldsfélag Birgirs Þórs Bieltvedt) og Guðmundar Þórðarsonar, hefur gengið frá kaupum á 50% hlutafjár í Metropol.

Metropol er margverðlaunað fyrirtæki í hönnun, framleiðslu, heildsölu og smásölu á tískufatnaði. Hin 50% eru í eigu Tommy Hyldahl, stofnananda og framkvæmdastjóra félagsins. Fyrirtækjaráðgjöf Straums fjárfestingarbanka í Danmörku veitti BG Partners ráðgjöf við kaupin og kom að fjármögnun verkefnisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Metropol var stofnað árið 1997 og hefur notið velgegni á undanförnum árum en fyrirtækið hefur m.a. verið tilnefnt 6 sinnum til Gazellu verðlaunanna í Danmörku, en það eru verðlaun sem eru veitt til efnilegra fyrirtækja sem hafa vakið athygli fyrir framsækni og góðan árangur.

Metropol hannar, framleiðir og selur föt undir 6 vörumerkjum, Margit Brandt, St Martins, S’nob, SUIT, Trousers og Black Milk. Félagið er með yfir 1.500 manns í vinnu, þar sem mestur fjöldi starfsmanna er í verksmiðjum félagsins í Kína. Velta Metropol á síðasta ári var um DKK 200 milljónir og framlegð fyrir skatta of afskriftir (EBITDA) rúmlega DKK 40 milljónir.

Metropol þjónustar yfir 2.000 viðskiptavini í 25 löndum. Metropol hefur á undanförnum árum náð að skapa sér sterka stöðu sem framleiðandi og heildsali á tíkufatnaði. Nýverið markaði fyrirtækið sér þá stefnu að auka verulega hlutdeild smásölu í rekstri félagsins og verður það verkefni næstu ára.

Stefnt er að því að hefja markaðssókn félagsins inn á smásölumarkaði í Evrópu og mið-austurlöndum undir vörumerkinu NORR. NORR verður samnefnari fyrir 6 vörumerki félagsins í fatnaði og úrvali af lífstílsvörum s.s. húsgögnum og fylgihlutum framleiddum af Metropol. NORR búðirnar verða ýmist í eigu Metropol eða sérleyfishafa. Einnig er vinna hafin við að setja upp svokallaðar ”shop-in-shop” búðir í samvinnu við þekkt vöruhús í Bretlandi og Þýskalandi.

„Við höfum lengi haft áhuga á því að útvíkka starfsemi Metropol enn frekar og byggja upp lífstílsbúðir. Sá draumur er nú að verða að veruleika með upphafi NORR. Kaup BG Partners á 50% hlutafjár mun jafnframt styrkja félagið og búa það til frekari sóknar. Ég er mjög ánægður með kaup þeirra í félaginu og fæ til liðs við Metropol sterkt félag og áhugaverðan samstarfsaðila sem hafa sterk tengsl inn á smásölumarkaðinn” segir Tommy Hyldahl framkvæmdastjóri Metropol.

„Við erum mjög ánægðir með kaupin á Metropol. Fyrirtækið er einstaklega vel rekið, hefur góða sögu, sterka stjórnendur og við sjáum mikil tækifæri í því að stækka fyrirtækið og sækja inn á alþjóðlega markaði. Það eru spennandi tímar framundan hjá Metropol sem munu einkennast af sókn inn á nýja markaði, vexti í framleiðslu og útvíkkun á vöruúrvali. Núverandi vörulína félagsins er mjög góð og við sjáum mikil tækifæri í því að bæta inn nýjum vörum“ segir Birgir Þór Bieltvedt.