*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 25. janúar 2019 17:32

BHM bregst við hugmynd Lilju

Menntamálaráðherra vill setja á námsstyrk fyrir kennaranema, BHM fagnar því en benda á að fleiri stéttir þurfi slíka styrki.

Ritstjórn
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Birgir Ísl. Gunnarsson

BHM hefur gefið út yfirlýsingu brugðist við áformum Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, um að kennaranemar fái sérstaka styrki til náms, til þess að auka aðsókn í kennaranám.

Í yfirlýsingunni kemur fram að BHM fagni þessum hugmyndum ráðherra, en bendir jafnframt á að svipaða leið þurfi að fara til að tryggja nauðsynlega nýliðun í öðrum stéttum háskólamenntaðra. 

Yfirlýsingu BHM má sjá í heild hér að neðan: 

Nýlega viðraði mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, hugmyndir um að Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) greiði sérstaka styrki til kennaranema til að stuðla að aukinni aðsókn í námið og koma í veg fyrir kennaraskort í landinu. BHM fagnar þessum hugmyndum ráðherrans en bendir jafnframt á að svipaða leið þyrfti að fara til að tryggja nauðsynlega nýliðun í öðrum stéttum háskólamenntaðra. Ítrekað hefur komið fram að meðalaldur t.d. ljósmæðra og lífeindafræðinga er hár og á næstu árum munu stórir hópar þeirra fara á eftirlaun. Sá fjöldi nemenda sem nú stundar nám í þessum greinum mun ekki nægja til að fylla í skörðin.

BHM hvetur stjórnvöld til að grípa til róttækra aðgerða svo tryggja megi nauðsynlega nýliðun í þessum starfsstéttum og, eftir atvikum, í öðrum stéttum háskólamenntaðra sérfræðinga. Meðal annars ættu stjórnvöld að kanna möguleika á því að LÍN veiti nemendum í vissum greinum sérstaka námsstyrki.