BHM krefst kjaraleiðréttingar

Bandalag háskólamanna (BHM) krefst kjaraleiðréttingar til handa félagsmönnum sínum hjá hinu opinbera. Hefur BHM sent frá sér yfirlýsingu í tilefni af framkomnu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 en félagsmenn hafa samningslausir í hálft annað ár.

BHM krefst þess m.a. að lokið verði við óuppfyllt ákvæði frá fyrri kjarasamningum um fyrirkomulag sí- og endurmenntunar. Einnig að ákvæði stöðugleikasáttmála um starfsendurhæfingarsjóð verði uppfyllt. Þá krefst BHM þess að markvisst verði unnið að því að háskólamenntun sé metin til launa og að tafarlaust verði bundinn endi á verðfellingu menntunar á vinnumarkaði.

Í yfirlýsingunni kemur fram að taka þurfi tillit til námslána við umfjöllun um skuldabyrði heimila í landinu. Ekki verði frekar gengið á réttindi til fæðingarorlofs, enda sé slíkt aðför að jafnrétti kynjanna og andstætt ákvæðum laga um fæðingarorlof.

Staðinn verði vörður um menntun og fagmennsku í þeim niðurskurði sem boðaður er hjá hinu opinbera. BHM mun ekki taka þátt í framlengingu stöðugleikasáttmála á grundvelli boðaðrar láglaunastefnu eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpi ársins 2011.

„Stjórn BHM ítrekar að laun háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna verða ekki ákveðin með öðrum hætti en kjarasamningsviðræðum við hlutaðeigandi stéttarfélög.

BHM gaf stjórnvöldum með aðild sinni að stöðugleikasáttmála tóm til að hefja endurskipulagningu opinberrar þjónustu og endurreisn atvinnulífsins.  Það tóm hefur ekki verið nýtt.  Framlag BHM á þeim tíma var m.a. að slá launakröfum á frest, en svar stjórnvalda hefur falist í beinum launalækkunum og hækkunum gjalda til þessa hóps millitekjufólks.

Laun félagsmanna BHM jafnt á opinberum sem almennum markaði lágu óbætt hjá garði síðastliðið sumar, þegar launamenn á vinnumarkaði fengu almennt 2,5% hækkun.

Stjórn BHM ítrekar því andstöðu bandalagsins við frekari frystingu launa félagsmanna sinna, enda ótækt að hlíta þeim áætlunum fjárlagafrumvarpsins að háskólamenn sæti launafrystingu til fimm ára auk allra þeirra skattahækkana og tekjutenginga sem lagðar eru til eða þegar fram komnar.

Fyrirliggjandi frumvarp til fjárlaga ber með sér vanvirðingu fyrir menntun á vinnumarkaði og er alvarleg árás á millitekjuhópa og sér í lagi ungt langskólagengið fólk.

Stjórn BHM þykir lítt traustvekjandi að frumvarpið skuli ekki vera byggt á nýrri talnagrunni en raun ber vitni.

Að lokum beinir stjórn BHM þeirri kröfu til alþingismanna að þeir sýni þjóðinni þá virðingu að láta af innbyrðis átökum og einhendi sér allir sem einn í að leysa úr brýnum þjóðfélagsmálum,” segir í yfirlýsingu BHM.