*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 23. ágúst 2017 18:05

BHM segist bíða eftir fundum

BHM átelur seinagang samninganefndar ríkisins en úrskurður gerðardóms um kaup félagsmenna fellur úr gildi í lok mánaðarins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sautján aðildarfélög Bandalags háskólamanna bíða þess að ná fundi samninganefndar ríkisins (SNR) en úrskurður gerðardóms um kaup og kjör félagsmanna þeirra fellur úr gildi 31. ágúst nk.

BHM átelur seinagang samninganefndarinnar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins en flest þessara aðildarfélaga hafa beðið þess að ná fundum SNR um hríð og enn önnur hafa ekki undirritað viðræðuáætlun við nefndina segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Lögum samkvæmt ber að undirrita slíka áætlun a.m.k. 10 vikum áður en samningar renna út. Samkvæmt þeim viðræðuáætlunum sem hafa verið undirritaðar á að ganga frá kjarasamningum aðildarfélaganna við ríkið fyrir mánaðamót. Á morgun er vika til stefnu og þessi staða er því ekki í samræmi við áform aðila vinnumarkaðarins um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð.

BHM hvetur fjármála- og efnahagsráðherra til þess að ganga frá skipun SNR svo að samninganefndin geti gengið til kjarasamninga við aðildarfélög BHM.