Stærsta námufyrirtæki heims, BHP Billiton, hefur stigið fram sem mögulegur bjargvættur álframleiðandans Alcan gegn óvinveittu yfirtökuboði samkeppnisaðilans Alcoa, að því er kemur fram í frétt Globe and Mail.

Aloca lagði fram ósamþykkt yfirtökuboð í Alcan þann 7. maí síðastliðinn, sem hljóðar upp á tæpa 1.700 milljarða króna, en Alcoa mælti með því við hluthafa sína á þriðjudaginn að hafna tilboðinu, þar sem það endurspegli ekki verðmæti fyrirtækisins og sé langt undir markaðsvirði þess.

Dick Evans, forstjóri og framkvæmdarstjóri Alcan, sagði við það tilefni að fyrirtækið væri að skoða alla þá möguleika sem væru í stöðunni og það fælist meðal annars í því að það stæðu yfir umræður við aðra aðila. Globe and Mail greindi svo frá því í gær að viðræður á milli BHP Billiton og Alcan hafi átt sér stað, en þær væru á frumstigi og hafa ekki verið staðfestar. BHP Billiton varð til við samruna ástralska fyrirtækisins Broken Hill Proprietary Company og breska fyrirtækisins Billiton árið 2001, og er það stærsta sinnar tegundar, en fyrirtækið er tvískráð í Bretlandi og Ástralíu.

Greiningaraðilar hafa einnig velt vöngum yfir því hvort önnur fjársterk námufyrirtæki á borð við Rio Tinto PLC og Xtrata PLC muni stíga fram að samningaborðinu. Einnig hefur það ekki verið útilokað að Alcan muni gera tilraun til yfirtöku á Alcoa.

Óvíst er hvort Alcoa sé reiðubúið að hækka tilboð sitt, en Kevin Lowery, talsmaður Alcoa, segir að engar viðræður hafi átt sér stað síðan yfirtökuboðið var lagt fram. Hann segir að fyrirtækið muni fara yfir svar Alcan á næstunni, en Alcoa sé áfram í þeirri trú að tilboðið sé sanngjarnt og hagstætt hluthöfum.

Alcoa hafði átt í árangurslausum samrunaviðræðum við Alcan í tæplega tvö ár, áður en fyrirtækið lagði yfirtökuboðið fram. Alcoa segir að samruni fyrirtækjanna sé nauðsynlegur þar sem fyrirtæki sem starfa á nýjum mörkuðum séu sífellt að auka markaðshlutdeild sína, en fyrirtæki á borð við United Co. Rusal frá Rússlandi, Aluminum Corp. frá Kína og Dubai Aluminum hafa öll verið að auka við framleiðslu sína í löndum þar sem orkuverð er lægra.

Alcoa heldur því fram að hagræðing við samruna fyrirtækjanna muni fela í sér rúmlega 60 milljarða króna sparnað á ársgrundvelli. Tekjur sameinaðs fyrirtækis myndu verða rúmlega 3.300 milljarðar króna og framleiðslugeta þess væri 7,78 milljónir tonna af áli á ári. Hjá sameinuðu fyrirtækinu myndu starfa 188 þúsund starfsmenn í sex heimsálfum, en sem kunnugt er rekur Alcan álverið í Straumsvík og Alcoa rekur álverið á Reyðarfirði.