Fastlega er gert ráð fyrir því Japansbanki muni ekki hækka hjá sér stýrivexti í vikunni - í 0,75% úr 0,5% - að mati sérfræðinga vegna þeirrar ólgu sem ríkt hefur á fjármálamörkuðum. Lækkun Nikkei hlutabréfavísitölunnar í síðustu viku var sú mesta á einni viku frá því árið 1990.

Fyrir aðeins tveimur vikum síðan voru flestir greiningaraðilar - eða um 70% - á þeirri skoðun að Japansbanki myndi hækka hjá sér stýrivexti þegar stjórn bankans kæmi saman til fundar á miðvikudaginn og fimmtudaginn í þessari viku. Atburðarrás á fjármálamörkuðum í þessum mánuði hefur nánast útilokað slíka ákvörðun.

Japansbanki veitti í gær 8,8 milljörðum Bandaríkajdala inn á fjármálamarkaði landsins í því augnamiði að stemma stigu við áhyggjum um vaxandi lausafjárþurrð á fjármagnsmörkuðum sökum vanskila tengdum áhættusömum fasteignalánum (e. subprime-mortgage) í Bandaríkjunum. Ákvörðun bankans kemur í kjölfar þess að Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði hjá sér útlánavexti um 0,5% á föstudaginn.

Í frétt Bloomberg-fréttaveitunnar er hins vegar bent á að þrátt fyrir að Toshihiko Fukui, seðlabankastjóri Japansbanka, muni fresta því um sinn að hækka stýrivexti sé hann engu síður að staðráðinn í því að arfleifð sín í embætti verði sú að hafa endurvakið "eðlilega" peningamálstefnu hjá bankanum með því að hækka hina lágu stýrivexti sem verið hafa í Japan undanfarin ár. Kjörtímabili Fukui sem seðlabankastjóra lýkur í mars á næsta ári.

Bæði japönsk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) hafa gagnrýnt þá peningamálastefnu sem Fukui hefur markað um að nauðsynlegt sé að halda áfram stýrivaxtahækkunum bankans í smáum skrefum. Röksemdarfærsla helstu gagnrýnenda Fukui fyrir því að viðhalda óbreyttum vöxtum hefur einkum verið sú að einkaneysla almennings hafi ekki enn tekið almennilega við sér og að verðlag þar í landi hafi lækkað fimm mánuði í röð.

Samfara þeim hræringum sem hafa verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum - og nánast útiloka stýrivaxtahækkun Japansbanka - hafa gjaldeyrissérfræðingar séð ýmis teikn á lofti um endalok svokallaðra vaxtamunarviðskipta, en gengi japanska jensins styrktist mikið í síðustu viku á sama tíma og hávaxtamyntir á borð við íslensku krónuna og nýsjálenska dalinn veiktust. Í gær veiktist aftur á móti jenið annan daginn í röð gagnvart evrunni og Bandaríkjadal sökum væntinga um að vaxtamunarviðskipti muni aftur taka við sér í kjölfar ákvörðunar Seðlabanka Bandaríkjanna um að lækka útlánvexti, en sú ákvörðun var talin vera vísbending um að bankinn hygðist lækka vexti um 50 punkta í september, úr 5,25% í 4,75%. Bloomberg hefur eftir Toshi Honda, gjaldeyrissérfræðingi hjá Mizuho Corporate bankanum í London, að styrking jensins hafi náð ákveðnu hámarkai í síðustu viku.

Miklar hækkanir voru á hlutabréfamörkuðum í Asíu í gær. Eftir að hafa lækkað um 5,42% á föstudaginn hækkaði Nikkei 225 hlutabréfavísitalan um 3% í viðskiptum í gær og í Hong Kong hækkuðu hlutabréf um tæp 6%, sem er það mesta á einum degi í þrjú ár.