Hlutabréfamarkaðir ýmist hækkuðu eða lækkuðu í Evrópu í dag en allir höfðu þeir sýnt rauðar tölur fram eftir degi.

Það voru helst lyfjaframleiðendur sem höfðu jákvæð áhrif á markaði og urðu til þess að sumir þeirra hækkuðu.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 0,7% í dag og hækkaði þar með um 12,8% í þessari viku. Vísitalan lækkaði engu að síður um 7,6% í nóvember og lækkar þar með níunda mánuðinn í röð að sögn Retuers fréttastofunnar.

Eins og fyrr segir voru það lyfjaframleiðendur sem orsökuðu hækkanir á þeim mörkuðum sem á annað borð hækkuðu. Þannig hækkaði Novartis um 4,4% og GlaxoSmithKline um 4,9% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,1%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan hins vegar um 0,3% en í Frankfurt stóð DAX vísitalan í stað.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,4% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 3,1%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,9%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan hins vegar um 0,6% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 2,1%.