Hælisleitendur munu einungis þurfa að bíða eftir málsmeðferð hér á landi í 90 daga samkvæmt nýjum samningi. En innanríkisráðherra og fulltrúar Rauða krossins undirrituðu í hádeginu samstarfssamning um málefni útlendinga. Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkisútvarpsins .

Samkvæmt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra mun málsmeðferðartímann styttast úr tveimur til þremur árum í þrjá mánuði á hvoru stigi fyrir sig. „Þetta breytir gríðarlega miklu fyrir það hvernig við vinnum málin, hvernig við náum að nýta fjármagnið sem við höfum, sem er auðvitað takmarkað, og til þess að gera þetta vel og örugglega. Og að fá Rauða krossinn með okkur í þetta er auðvitað gæðastimpill sem er mjög mikilvægur fyrir okkur.“

Málsmeðferðin styttist með því að fara svokallaða norska leið, segir Hanna Birna. Ákveðin talsmannaþjónusta færist yfir til Rauða krossins og sérstök kærunefnd sett á fót sem getur tekið á málum hraðar en ráðuneytið hefur getað. Innanríkisráðherra segir að þverpólitísk þingmannanefnd um endurskoðun útlendingalaga komi til með að vinna náið með sér og ráðuneytinu í þessum málaflokki. „Hún kemur að öllum þessum verkefnum og fer yfir endurskoðun laganna í heild sinni,“ segir Hanna Birna. „En þetta risastóra skref sem við erum að taka hér í dag er tekið í góðu samstarfi við fulltrúa allra flokka. Þannig langar mig að nálgast verkefnið og við munum gera það vonandi áfram þannig.“