*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 14. nóvember 2011 18:00

Bíða eftir lyklum að vínkjallara Kaupþingsstjóra

Aðalmeðferð er hafin í máli slitastjórnar Kaupþings gegn fyrrum framkvæmdastjóra bankans. Slitastjórnin vill kíkja inn í iðnaðarhúsnæði hans.

Jón Aðalsteinn Bergsvein

„Við vitum ekki hvað er í húsinu en höfum grun um að í því séu geymd verðmæti. Ef við teljum tilefni til þá getum við krafist þess að fá vörslu yfir því sem þar er,“ segir Guðni Ásþór Haraldsson hæstaréttarlögmaður sem flytur mál slitastjórnar Kaupþings gegn Steingrími P. Kárasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra áhættustýringar Kaupþings.

Aðalmeðferð í máli slitastjórnar gegn Steingrími hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en það á að skera úr um hvort slitastjórnin fái leyfi til að komast inn í 271 fermetra iðnaðarhúsnæði við Smiðshöfða í Reykjavík. Húsið er í eigu Steingríms og Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings hér á landi.

Ekki liggur fyrir hvað er í húsinu. Fréttatíminn greindi frá því í júlí í sumar þegar slitastjórnin fékk eignir Steingríms hér á landi kyrrasettar að í því væru geymdar vínbirgðir metnar á 200 til 300 milljónir króna.

Guðni vildi í samtali við Viðskiptablaðið ekkert segja til um hvað það er sem slitastjórnin gerir sér vonir um að finna þar.

Slitastjórnin fékk í sumar fleiri eignir fyrrverandi stjórnenda Kaupþings kyrrsettar hér á landi. Þar á meðal er einbýlishús Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi starfandi stjórnarformanns bankans. Samtals hljóðuðu kyrrsetningarbeiðnir slitastjórnar í sumar upp á 154,8 milljónir króna.

Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti kyrrsetningabeiðnirnar í sumar en neitaði slitastjórninni um leyfi til að fara inn í húsnæðið til að skoða hvað þar leynist. Vonast er til að úrskurður héraðsdóms, sem líklegt er að falli innan fjögurra vikna, veiti slitastjórn lykilinn að dyrum iðnaðarhúsnæðisins við Smiðshöfða.

„Við bíðum róleg eftir niðurstöðunni og skoðum hana þegar hún kemur,“ segir Guðni.

Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri banka Kaupþings í Bretlandi, greinir frá því í bók sinni að á gleðistundum var skálað í kampavíni í bankanum. Forstjóri bankans á Íslandi og forstöðumaður áhættustýringar eru taldir hafa lumað á vínbirgðum.