Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, hefur ekki hlotið svar frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, dómsmála- og forsætisráðherra, við fyrirspurn sem hún lagði fram á Alþingi fyrir mánuði síðan. „Við bíðum enn eftir svari," segir Aðalheiður Ámundadóttir, starfsmaður þingflokks Pírata.

Fyrirspurnin lýtur að því hvort hérlend lögregluyfirvöld hafi haldlagt vefþjóna, tekið af þeim afrit án vitneskju eigenda, eða fengið beiðnir um slíkar aðgerðir frá erlendum lögregluyfirvöldum. Fjöldi erlendra einstaklinga og fyrirtækja nýta sér þjónustu íslenskra gagnavera.

Gríðarstórt markaðstorg með fíkniefni

Í Viðskiptablaðinu í gær er greint frá því hvernig íslenska lögreglan tók afrit af vefþjóni sem hýsti Silk Road fíkniefnamarkaðstorgið og haldlagði hann síðan, að undirlagi bandarísku alríkislögreglunnar. Er það í fyrsta sinn sem er greint frá því hvernig rannsókn lögreglunnar var háttað í málinu, en málsókn á hendur 30 ára gömlum manni sem er grunaður um að hafa rekið markaðstorgið sem seldi fíkniefni fyrir jafnvirði 145 milljarða króna hið minnsta er grundvölluð á þessum aðgerðum íslensku lögreglunnar.

Fjöldamörg önnur markaðstorg með fíkniefni hafa sprottið upp í kjölfar þess að Silk Road var lokað.