Lífeyrissjóðir í hluthafahópi PCC á Bakka hafa ekki í hyggju að leggja fyrirtækinu til nýtt fjármagn að svo stöddu. Áður hafa verið sagðar fregnir af því að félagið þurfi allt að fimm milljarða króna innspýtingu. Sagt er frá í Markaðnum .

PCC SE er stærsti hluthafi kísilversins, með 86,5% hlutafjár, en samlagshlutafélag í eigu Íslandsbanka og lífeyrissjóða á afganginn. Fyrirhugað er að halda fund með hluthöfum í næstu viku til að ræða fyrirhugaða fjármögnun.

„Vilja sjóðirnir að verksmiðjan nái fyrst stöðugum og fullum afköstum samfellt í nokkra mánuði, auk þess að sjá hvort viðsnúningur verði í kísilverði á næstunni, áður en þeir skuldbinda sig til að leggja fyrirtækinu til aukið fjármagn,“ herma heimildir Markaðarins.

Í grein Markaðarins er enn fremur sagt frá því að skammtímasamkomualg verði gert milli hluthafa þess efnis að PCC SE leggi verksmiðjunni til aukið fé en félag bankans og sjóðanna, Bakkastakkur, fallist á að fresta vaxtagreiðslum af breytanlegu skuldabréfi til að bæta sjóðstreymi verksmiðjunnar.