Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði að núverandi staða kalli ekki á það að hefja undirbúning að lagasmíði um sjálfstýrðar bifreiðar. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Smára McCarthy, þingmanni Pírata, sem spurði ráðherra hvort að hún hyggist setja fram lagafrumvarp um sjálfstýrðar bifreiðar og önnur ökutæki.

Ráðherra bendir á að hin svokallaða fjórða iðnbylting er þegar farin að hafa áhrif á fjölmarga þætti lífs okkar og að stórstígar breytingar í samgöngumálum sem tengjast upplýsinga- og fjarskiptatækni eru oft ofarlega á blaði. Fjallað var um fjórðu iðnbyltinguna í Viðskiptablaðinu . „Þróun þessarar nýju samgöngutækni er á margan hátt spennandi vegna þess að hún getur leitt til margvíslegra samfélagslegra umbóta, t.d. með auðveldari ferðum þeirra sem vilja eða þurfa að losna undan eigin akstri. Þá mun ferðatími nýtast betur og til lengri tíma litið getur hún leitt til bætts umferðaröryggis og aukins orkusparnaðar. Auðveldara væri að stýra umferð inn á greiðfærar leiðir og svo mætti áfram telja,“ kemur enn fremur fram í svari ráðherra.

Forsendur breytast

Enn fremur bendir ráðherra á að með tilkomu þeirrar tækni sem felst í sjálfstýrðum ökutækjum munu forsendur í mörgum atvinnugreinum breytast. Til að mynda hjá leigu-, rútu,- og flutningabifreiðum „[...] og er ráðuneytið með þau mál til almennrar skoðunar út frá sjónarhorni atvinnuvega og nýsköpunar,“ segir í svari ráðherra.

Að lokum segir hún að það sé enn mörgum spurningum ósvarað þegar kemur að sjálfstýrðum bifreiðum og því kalli núverandi staða fyrst og fremst á að stjórnvöld fylgist vel með tækniþróun á þessu sviði, frekar en að hefja undirbúning að lagasmíði um sjálfstýrðar bifreiðar. Einnig kemur fram í svari ráðherra að forræði mála er lúta að samgöngum og umferðaröryggismálum á hendi samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis.