Settur ríkisendurskoðandi, Sigurðar Þórðarson, skilaði greinargerð um starfsemi Lindarhvols til forseta Alþingis, umboðsmanns Alþingis, Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, Seðlabanka Íslands og Lindarhvols í júlí 2018. Sigurður var settur ríkisendurskoðandi þar sem Sveinn Arason, þáverandi ríkisendurskoðandi, er bróðir Þórhalls Arasonar, þáverandi stjórnarformanns Lindarhvols. Þeir létu báðir af störfum árið 2018 og því tók Ríkisendurskoðun við verkinu af Sigurði.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segist ekki hafa kynnt sér greinargerðina sérstaklega en umfjöllun um hana á vettvangi Alþingis bíður endanlegrar skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol. Skúli Eggert Þórðarson, núverandi ríkisendurskoðandi, sagði við Viðskiptablaðið í september að skýrslan um Lindarhvol væri í umsagnarferli en til stæði að birta skýrsluna í október. Lindarhvoli ehf. var komið á fót í apríl 2016 til að sjá um sölu eigna sem ríkið fékk í gegnum stöðugleikaframlög föllnu bankanna. Slíta átti félaginu í febrúar 2018 þegar það hafði lokið hlutverki sínu, eða fyrir 18 mánuðum. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um hefur söluferli þess á Klakka verið harðlega gagnrýnt.