Ngozi Okonjo-Iweala, fyrrverandi fjármálaráðherra Nígeríu, verður fyrsta að líkindum fyrsta konan og fyrsti einstaklingurinn frá Afríku til að stýra Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO. BBC greinir frá.

Stjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta hefur ákveðið að styðja hana í embættið. Kjörinu hafði verið frestað vegna stuðnings stjórnar Donald Trump við aðra konu í embættið, Yoo Myung-hee, viðskiptamálaráðherra Suður-Kóreu. Trump hafði lítið álit á Alþjóðaviðskiptastofnuninni og lýsti henni sem „hræðilegri“ og taldi hana vilholla Kínverjum.

Yoo Myung-hee dró framboð sitt til baka á föstudaginn eftir að hafa átt „náið samtal“ við bandarísk stjórnvöld eftir að Biden tók við völdum.

Harald Aspelund mælti með Okonjo-Iweala

Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, sat í þriggja manna nefnd á vegum stofnunarinnar sem ætlað var að velja nýjan framkvæmdastjóra. Í viðtali við Viðskiptablaðið síðasta sumar sagði Harald að ferlið gengi fyrst og fremst út stigagjöf og viðtöl við sendiherra aðildarríkjanna um hvern ríkin styddu í embættið. „Það er í raun ekkert pláss fyrir okkar persónulegu skoðanir í þessu ferli," sagði Harald.

Sjá einnig: „Þetta í raun datt bara í fangið á mér“

Í lok október tilkynnti nefndin að hún mælti með Okonjo-Iweala í embættið sem naut stuðnings allra aðildarríkja nema Bandaríkjanna. Kjósa átti í embættið 9. nóvember en kjörinu var óvænt frestað eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Talið er að aðildarríkin hafi viljað bíða eftir að Biden tæki við til að ná sátt um kjörið.

Reyndur diplómati og í stjórn Twitter

Okonjo-Iweala verður að líkindum kjörin í embætti á fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í byrjun mars. Hún er uppalin í Nígeríu en er með doktorsgráðu í hagfræði frá MIT og lauk grunnnámi í hagfræði frá Harvard. Hún hefur að mestu búið í Bandaríkjunum undanfarna áratugi og öðlaðist bandarískan ríkisborgararétt árið 2019.

Okonjo-Iweala var utanríkisráðherra Nígeríu um skamma hríð árið 2006 og fjármálaráðherra Nígeríu árin 2003 til 2006 og 2011 til 2015. Hún starfaði í 25 ár hjá Alþjóðabankanum og fór hæst í næst æðstu stöðu bankans. Þá hefur hún unnið að fjölda þróunarverkefna á undanförnum áratugum. Auk þess situr hún í stjórn nokkurra fyrirtækja, þar á meðal Twitter og breska bankans Standard Chartered.