Verði flokkun Trölladyngju í biðflokk samkvæmt rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma staðfest mun það rýra eignir HS Orku. Bókfært virði Trölladyngju í efnahagsreikningi HS Orku er sem stendur 675 milljónir króna. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri fyrirtækisins sem birt var í síðustu viku. Verkefnisstjórn sem stýrir vinnu vegna 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma afhenti iðnaðar- og umhverfisráðherrum Íslands skýrslu sína með tillögum um hvernig eigi að flokka virkjanahugmyndir í júlí. Ráðherrarnir kynntu síðan þingsályktunartillögu sem byggir á skýrslunni þann 19. ágúst. Þar er Trölladyngja flokkuð í biðflokk en ekki nýtingarflokk eins og HS Orka hafði gert ráð fyrir. Í árshlutareikningi HS Orku kemur fram að það muni mótmæla flokkuninni í því tólf vikna umsagnarferli sem nú stendur yfir.