Kórónuveirufaraldurinn hefur svo sannarlega sett svip sinn á íslenskt efnahagslíf og hagkerfi. Eftir samkomubann í mars og apríl fór innlend neysla landsmanna þó að glæðast á nýjan leik um sumarið og til að mynda náði sala á pallaefni, heitum pottum, útileguvörum og ýmsum öðrum vörum hæstu hæðum. Innlenda neyslan virðist ekkert vera að gefa eftir, a.m.k. ef marka má hve góðar viðtökur nýjasta kynslóð af úrum frá Apple, Apple Watch Series 6, og nýja leikjatölvan PlayStation 5 hafa fengið hjá landsmönnum. Apple úrin, sem kosta um 90 þúsund krónur, voru vart farin í sölu er þau voru orðin uppseld hjá stærstu söluaðilum þess, líkt og Nova, Epli og Elko, og hafa myndast biðlistar eftir úrunum. Forsala PlayStation 5 leikjatölvunnar fór svo af stað með hvelli hjá Elko.

„Apple úrin hafa notið stigvaxandi vinsælda frá því að fyrsta kynslóð úrsins kom út. Með hverri kynslóð verða úrin alltaf betri og betri, auk þess sem nýir eiginleikar bætast við. Því hefur notendum fjölgað jafnt og þétt með tímanum. Apple úrið er orðið það vinsælasta í heimi og selur meira af úrum en allir úraframleiðendur í Sviss, en landi hefur lengi verið alræmt fyrir úraframleiðslu. Það er líka yfirleitt þannig að fyrsta sendingin af nýjum Apple vörum selst upp á augabragði. Það þarf því kannski ekki að koma mikið á óvart að fyrsta sending úranna hafi verið fljót að seljast upp," segir Guðni Rafn Eiríksson, eigandi Skakkaturnsins, umboðsaðila Apple á Íslandi en félagið rekur auk þess verslanir Epli. Hann segir fyrstu sendinguna hafa innihaldið nokkur hundruð úr. Þeir sem ekki hafi enn náð að verða sér úti um Apple úr þurfi þó ekki að örvænta, enda séu nýjar sendingar af úrum væntanlegar með viku millibili á næstu misserum.

Seldist upp á innan við tveimur tímum

Það eru ekki einungis Apple úrin sem rjúka út eins og heitar lummur. Tölvuleikjaaðdáendur hafa beðið með mikilli eftirvæntingu eftir nýjasta flaggskipi Sony, leikjatölvunni PlayStation 5. Raftækjaverslunin Elko hóf fyrr í þessum mánuði forsölu á fyrstu sendingu af leikjatölvunum og segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri Elko, að upplagið sem verslunin fékk úthlutað hafi selst upp á innan við tveimur klukkustundum. Reiknað er með að fyrstu afhendingar nýju leikjatölvanna fari fram í lok nóvember.

„Eftirspurnin var margföld á við það framboð sem við fáum í þessari fyrstu sendingu. Ef við hefðum haft úr nægu framboði af tölvum að moða hefðum við sprengt allar tölur hvað varðar vefsölu á einum degi," segir hann og bætir við að Elko hefði getað selt margfalt fleiri tölvur en voru í boði í fyrsta upplaginu.

Hann segir raftækjaverslunina nú bíða eftir upplýsingum frá umboðsaðila hérlendis um hvenær megi eiga von á næstu sendingu, svo hægt sé að setja upp áform um hvenær næsta forsala fari í gang. „Áhugasamir kaupendur geta skráð sig á póstlista inni á heimasíðu Elko til að fá sendar upplýsingar í tölvupósti um hvenær næsta forsala fari fram."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Farið er yfir aðdraganda að endalokum Íslensku auglýsingastofunnar.
  • Umfjöllun um sölu Bláfugls fyrr á þessu ári.
  • Nokkrir Íslendingar eru meðal þeirra áhrifamestu í sjávarútvegi í heiminum.
  • Rýnt er í launatölur Hagstofunnar fyrir árið 2019.
  • Fjallað er um skráningu strákabandsins BTS í kauphöllina í Suður-Kóreu.
  • Rætt við tvo læknanema sem hafa þróað sjálfvirka lausn sem sparar læknum dýrmætan tíma.
  • Una Sighvatsdóttir, nýr stafsmaður forseta Íslands, segir frá fyrsta embættisverkinu.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem skrifar um kjaramál.