*

laugardagur, 24. júlí 2021
Innlent 19. september 2016 14:57

Biðlistar lengjast og hagkvæmni minnkar

Viðskiptaráð fjallar um skýrslu McKinsey sem segir hækkun fjárframlaga til spítala einungis fara í aukinn launakostnað.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Aukin fjárframlög til Landspítalans síðustu ár hafa ekki skilað aukinni eða betri þjónustu, meðan meðallaun á spítalanum hafa hækkað talsvert umfram almennan vinnumarkað. 

Biðlistar hafi lengst um 80% á síðustu árum og kostnaðarhagkvæmni hefur dregist saman, því afköstin hafi dregist saman svo hver eining þjónustu er dýrari en áður.

Þetta kemur fram í úttekt ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company sem Viðskiptaráð Íslands fjallar um, en ráðið vill að aukin fjárútlát til kerfisins séu eyrnamerkt aukinni þjónustu og lækkun kostnaðarþátttöku sjúklinga.

Kostnaður á hvert stöðugildi eykst

„Frá árinu 2012 hefur launakostnaður verið helsta ástæða aukins rekstrarkostnaðar Landspítalans. Aukningin hefur einkum verið vegna aukins kostnaðar á hvert stöðugildi en fjölgun stöðugilda hefur verið takmörkuð,“ segir í skýrslunni. 

„Á sama tíma og kostnaður hefur aukist hafa afköst á sjúkrahúsinu minnkað […]“ Viðskiptaráð bendir á að laun starfsfólk hafi hækkað um 31% á síðustu þremur árum að meðaltali, samkvæmt ársreikningum spítalans, meðan meðallaun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 20%.

Hagkvæmni minnkar

Viðskiptaráð segir að þrátt fyrir að það sé mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólki bjóðist samkeppnishæf laun á Íslandi eigi meginmarkmið heilbrigðiskerfisins að vera að skila sem mestri og bestri þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. 

Það sé ekki að nást því að á sama tíma og fjárframlögin hafi aukist hafi afköstin dregist lítillega saman. Umfang veittrar þjónustu hafi minnkað um tæplega 1% á síðastliðnum þremur árum, svo kostnaðarhagkvæmni á spítalanum hefur minnkað, og hver kostnaður við hverja einingu af þjónustu hefur aukist.

Biðlistar lengjast

Jafnframt sýna mælikvarðar á gæði þjónustunnar ekki fram á aukin gæði, svo þeir viðbótarfjármunir sem veittir hafa verið til spítalans hafa því hvorki gagnast sjúklingum í formi aukinnar, né betri þjónustu.

Í fyrra biðu 4.600 manns eftir skurðaðgerð sem er um 80% aukning frá árinu 2012 þegar um 2.600 manns biðu efir aðgerð. Hærra hlutfall þeirra sem eru á biðlistum þurfa líka að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.

Fimm af hverjum sex vísað frá

Viðskiptaráð fjallar jafnframt um aðgangshindranir að læknanámi gangi þvert á umræðu um nauðsyn hærri launa fyrir stéttina til að gera störf þeirra meira aðlaðandi. Þannig hafi einungis 48 af þeim 307 einstaklingum sem tóku inntökupróf í læknisfræði hleypt inn í námið.

Vill ráðið draga úr aðgangshindrunum til þess að fjölga í hópi lækna, því lítill skortur sé á einstaklingum hérlendis sem vilji starfa sem læknar.