Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur sagst vilja láta grísku þjóðina greiða atkvæði um drög að björgunarsamningi við lánadrottna landsins. Á atkvæðagreiðslan að fara fram þann 5. júní næstkomandi.

Fljótlega eftir að fréttir bárust af ákvörðun Tsipras tóku biðraðir að myndast við gríska banka og var fólk þar að taka fé sitt úr bönkunum.

Gildandi björgunarsamningur rennur endanlega út á þriðjudaginn og sama dag þarf gríska ríkið að greiða 1,5 milljarða evra afborgun af láni frá Alþjóðgjaldeyrissjóðnum. Nær öruggt er talið að án aðstoðar geti ríkissjóður ekki greitt þetta fé. Tillögur lánadrottna núna fela í sér fimm mánaða framlengingu á björgunaráætluninni og fyrirgreiðslu upp á 15,5 milljarða evra, en til að fá féð þyrfti gríska ríkið að ráðast í aðhaldsaðgerðir sem ríkisstjórn Syriza hefur ekki viljað gera.

Á undanförnum mánuðum hafa tugir milljarða evra runnið út úr gríska bankakerfinu og við það hefur staða gríska ríkisins og hagkerfisins veikst.