„Þetta hefur verið alger skrípaleikur,“ segir Kristján Rafn Sigurðarson, framkvæmdastjóri Eðalfisks í Borgarnesi, um meðferð félagsmálaráðuneytisins (FRN) á stjórnsýslukæru félagsins. Félagið fór fram á að fá tímabundið atvinnuleyfi fyrir starfsmann, sem ekki er af EES-svæðinu, en því var hafnað af Vinnumálastofnun (VMST) og ráðuneytinu. Rúm tvö ár tók að fá botn í málið.

Umræddur starfsmaður er Egypti sem hafði áður starfað í Póllandi. Hann kom hingað til lands vorið 2018 og vildi starfa hjá Eðalfiski. VMST hafnaði því 18. júní það ár að veita honum tímabundið atvinnuleyfi. Ákvörðunin var studd þeim rökum að starfið hefði ekki verið auglýst laust með milligöngu EURES, vinnumiðlunar EES, áður en í það var ráðið.

Meginreglan sé sú að einstaklingar innan EES hafi forgang í störf en á þessum tíma hafi atvinnuleysi á því mælst rúm sex prósent og rúm tvö prósent hér á landi. Ekki hafi verið fullreynt að finna starfskraft hér á landi eða á EES-svæðinu og beiðni um leyfi því synjað. Sú ákvörðun var kærð um hæl til FRN og þess óskað að ráðuneytið myndi flýta því sem unnt er að kveða upp úrskurð í málinu. Sá úrskurður lá fyrir undir lok júní á þessu ári, rúmum tveimur árum eftir að kæran var send og rúmum tuttugu mánuðum eftir að öll gögn málsins lágu fyrir.

„Þetta er einn flottasti starfsmaður sem ég hef fengið í próf hérna. Á þessum tíma var enginn tiltækur í vinnu hér, atvinnuleysi lítið og það hafði enginn sýnt áhuga,“ segir Kristján Rafn. Hann hafi í öðrum tilfellum reynt að auglýsa eftir starfskröftum í gegnum EURES en án árangurs.

„Það hefur komið fyrir að við höfum rambað á hæft starfsfólk en það er sjaldan. Oftar en ekki hefur þetta bara verið ekkert nema kostnaður og vitleysa sem felst í að reyna að fá starfsfólk í gegnum það kerfi,“ segir Kristján Rafn. Að þessu sinni hafi sú leið verið farin að ráða hæfan einstakling sem vildi vinna hjá fyrirtækinu en hann mátti síðan ekki vera hér. „Hann fór strax úr landi þegar ákvörðun VMST lá fyrir. Ég hefði getað fengið fangelsi í allt að tveimur árum hefði hann farið á launaskrá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .