Gjalda ber varhug við því í opinberri umræðu að tala um bókfært virði eignarhlutar ríkisins í nýju bönkunum sem fé í hendi, að því er segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Þar er rætt um útgáfu skilyrta skuldbréfsins frá nýja Landsbankanum til þess gamla, en uppgjörið felur í sér að íslenska ríkið á nú 98% í bankanum og bankinn sjálfur 2%.

„Þegar hafa borist fregnir af ávinningi ríkisins af því að hafa lagt bankanum til fé. Samkvæmt þeim er hreinn ávinningur ríkisins um 55 milljarðar króna miðað við bókfært virði bankans, þegar tekið hefur verið tillit til vaxtagreiðslna ríkisins af skuldabréfinu sem gefið var út til þess að endurfjármagna bankann,“ segir í Markaðspunktum.

Þar segir að það væri sannarlega ánægjulegt ef sú verður raunin. „Hins vegar gjöldum við almennt varhug við því í opinberri umræðu nú um stundir að bókfært virði banka sé notað sem besta nálgunin við markaðsverð þeirra. Þótt bókfært virði Landsbankans (og hinna stóru bankanna) hafi aukist töluvert í takt við hagnað þeirra undanfarin ár, þá er ekki þar með sagt að hægt væri að innleysa þann ávinning með sölu á bönkunum. Í Evrópu er hlutfall markaðsvirðis og bókfærðs virðis banka víðast undir einum, jafnvel svo nokkru nemi, og það er óvarlegt að treysta á að öðru máli gegni um þá íslensku.“

Segir greiningardeildin að hrein ávöxtun ríkissjóðs af eiginfjárframlaginu til Landsbankans geti í framtíðinni komið fram með tvenns konar hætti. Annað hvort gerist það með sölu á eignarhlut ríkisins, þar sem innleystur hagnaður að frádregnum fjármagnskostnaði verður ávöxtun ríkissjóðs. Á hinn bóginn gæti ríkissjóður notið arðgreiðslna frá Landsbankanum í framtíðinni sem verða þá vonandi hærri en fjármagnskostnaður ríkissjóðs vegna eiginfjárframlagsins.