Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir hefur viðurkennt að hún og prófessor Robert Wade hafi orðið á mistök þegar þau settu gæsalappir utan um beinar tilvitnanir utan um setningar sem þau eignuðu Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, prófessors við Háskóla Íslands. Þau hafa jafnframt boðist til að leiðrétta villuna í þeim blöðum og tímaritum sem tilvitnunin hefur birst.

Frásögn þeirra Sigurbjargar og Wade hafa birtst í fjölda blaða og tímarita. Þar á meðal eru New Left Review, Monde diplomatique, Huffington Post, Cambridge Journal of Economics á bæði ensku, þýsku, frönsku, spænsku og fleiri tungumálum.

Kannast ekki við mesta árangur í heimi

Hannes skrifar um málið í pistli á Pressunni . Þar segir Hannes að tilvitnunin sé eftirfarandi og eigi hann að hafa ritað þau í Wall Street Journal hinn 29. janúar árið 2004 um ríkisstjórn Davíðs Oddssonar: „„Oddsson’s experiment with liberal policies is the greatest success story in the world.“ Eða á íslensku: Frjálshyggjutilraun Davíð Oddssonar er saga um mesta árangur í heimi.“

Þetta segir Hannes rangt:

„[...] ég sagði þetta alls ekki í Wall Street Journal 29. janúar 2004. Þau orð, sem Sigurbjörg og Wade hafa beint eftir mér og setja innan gæsalappa, er hvergi að finna í greininni, sem hefur frá upphafi verið aðgengileg á Netinu. Greinin í Wall Street Journal var skrifuð í tilefni af 100 ára heimastjórn á Íslandi, og þar segi ég, að Ísland sé komið í fremstu röð um almenna velmegun eftir róttækar og umfangsmiklar umbætur í átt til aukins frelsis, sem eigi sér helst hliðstæður í Bretlandi Thatchers, Nýja Sjálandi og Síle. Ég bæti við í næstu málsgrein, að þessi góði árangur sé ekki síst að þakka Davíð Oddssyni, sem hafi nú lengst allra vestrænna stjórnmálamanna verið forsætisráðherra.“

Hannes segist hafa kvartað undan ummælunum. Sigurbjörg hafi sagt þau Wade hafa tekið setninguna eftir þriðja aðila en ekki flett frumheimildinni upp.