„Ég var að reyna að leggja áherslu á styrk og langa sögu félagsins" sagði Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase og baðst afsökunar á brandara um að fyrirtækið muni lifa lengur en Kommúnistaflokkur Kína. Samkvæmt Wall Street Journal sagði Dimon að félagið væri orðið 100 ára líkt og Kommúnistaflokkurinn og að hann „þori að veðja að félagið muni lifa lengur“.

Ummæli Dimons komu í kjölfar spurningar úr sal á viðburði í Boston háskóla um viðskipti fyrirtækisins í Kína. Viðburðurinn var í gær, en Dimon baðst afsökunar á ummælum sínum nú í morgun.

Dimon hafði nýlega verið í Hong Kong, en 4 þúsund manns vinna í útibúum JPMorgan í Hong Kong. Félagið hefur aukið umsvif sín í kínversku efnahagslífi á undanförnum misserum og á því töluvert undir velvild kínverskra stjórnvalda.

JPMorgan var nýlega valinn kerfislega mikilvægasti banki heimshagkerfisins á nýjasta lista Fjármálastöðugleikaráðs en ráðið samanstendur af fulltrúum eftirlitsstofnanna innan G20 landanna.