Þingmenn Pírata ætla að þæfa frumvarp um lækkun veiðigjalds þegar önnur umræða þess fer fram á Alþingi eða þar til forseti Íslands snýr aftur heim frá Þýskalandi. Málið hefur legið á borði atvinnuveganefndar Alþingis og var það afgreitt úr nefndinni í dag. Líkur eru á að það fari í aðra umræðu í dag eða á morgun.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sendi Einari K. Guðfinnsyni, forseta Alþingis, bréf í morgun þar sem m.a. segir að Píratar ætli að þæfa málið eins og þeir þurfa til að skapa svigrúm fyrir forseta Íslands að koma heim frá Þýskalandi um næstu mánaðamót og taka við málskotsréttinum úr höndum stjórnarliða sem hafa hann meðan forsetinn er erlendis.

Jón biðlar jafnframt til Ólafs Ragnars Grímssonar að hann fllýti heimför sinni til að hafa sjálfur málskotsvaldið. Að öðrum kosti muni málskotsvaldið, öryggisventill þjóðarinnar eins og Jón skrifar, vera hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra (Framsóknarflokki), Einari K. Guðfinnssyni forseti Alþingis (Sjálfstæðisflokki) og Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Hæstaréttar

„Tveir þeirra eru í þeirri ríkisstjórn sem lagði frumvarpið fram og munu án efa undirrita lögin án beinnrar aðkomu þjóðarinnar að málinu,“ skrifar Jón Þór.