Kostnaður við tónleikahald í kringum Justin Bieber sem haldnir verða í Kópavogi er talsvert meiri en þegar Justin Timberlake hélt tónleika á Íslandi um árið.

Þetta segir Ísleifur Þórhallsson, yfirmaður viðburða hjá Senu í viðtali við Viðskiptablaðið. Fyrirtækið stóð fyrir forsölu á miðum í dag og miðarnir seldust upp á örskotsstundu.

„Þetta er dýrara. Gengið er verra, og það eru fleiri gestir inni í húsinu,“ segir Ísleifur. „Fleiri gestum fylgir meiri kostnaður, og þetta er umfangsmeira. Það er meira af fólki að koma til landsins, stærra svið, og allt er umfangsmeira.“

Gengið spilar hlutverk í kostnaði

Auðvitað munar svo um gengið," segir Ísleifur. „Munurinn á genginu þá og í dag munar alveg slatta." Gengi bandaríkjadals móti íslensku krónunni hefur styrkst um rúm 10% frá því í ágúst 2014, en þá voru tónleikar Senu með Justin Timberlake haldnir í Kórnum.

Eins og fyrr segir hófst miðasala á tónleikana í dag, og seldust þar í kringum 8.500-10.000 miðar af þeim 19.000 sem eru í boði í heildina.

Ísleifur segir ótrúlega sárt að sjá hversu mikið meiri eftirspurn er um fram framboð á miðum, og það sé erfitt að horfa upp á aðdáendur Justin miðalausa og hörundsára.

Á fjórða hundrað milljónir í miðasölu

Ef gert er ráð fyrir því að hver einasti miði seljist upp á tónleikana - sem allt útlit er fyrir að verði - mun Sena hafa upp úr krafsinu einhverjar litlar 319 milljónir króna úr miðasölunni. Talan er fengin með einföldum útreikningi miðað við sætafjölda í stúkur og standsvæðið margfaldað við verðið.

Verð á miðum er svohljóðandi:

  • Standandi stæði:        15.990 kr
  • Stúka B:                    24.990 kr
  • Stúka A:                    29.990 kr

Óvíst er hversu mikið Bieber tekur fyrir hverja tónleika. Sé leitað á vefnum að tölfræði finnst lítið sem ekkert staðfest eða sannað, og því er erfitt að gefa nákvæma tölu. Flestar heimildir virðast þó benda til þess að Bieber sé að taka á bilinu 1-2 milljónir bandaríkjadala fyrir hverja sýningu. Það jafngildir krónutölu á bilinu 130-260 milljónir.