Bifreiðasala í Bandaríkjunum fer nú minnkandi og bendir margt til þess að hún muni lækka áfram á næsta ári og muni þá ná tíu ára lágmarki, segir í frétt Dow Jones.

Markaðsrannsóknarfyrirtækið IRN spáir því að 16,3 milljónir fólksbifreiða seljist á næsta ári, en sala hefur ekki farið niður fyrir það síðan 1998. Á þessu ári er spáð að 16,6 milljónir bifreiða verði seldar í Bandaríkjunum. Bifreiðaframleiðendur eru þó bjartsýnni, en GM og Toyota spá 16,5 milljónum seldra bifreiða.

Hæging á hagvexti í Bandaríkjunum og samdráttur á húsnæðisframkvæmdum hafa komið illa við þrjá stærstu bifreiðaframleiðendur Bandaríkjanna, General Motors, Ford og DaimlerChrysler. Öll fyrirtækin hafa verið rekin með tapi við núverandi markaðsaðstæður, og verður það því þeim mun erfiðara að snúa rekstrinum við ef eftirspurn minnkar, segir í fréttinni.

Evrópskir og japanskir bifreiðaframleiðendur yrðu einnig fyrir tjóni ef eftirspurn í Bandaríkjunum minnkaði. Toyota og BMW yrðu til dæmis fyrir verulegum áhrifum ef eftirspurn í Kaliforníufylki minnkaði.

Toyota hefur eytt mörgum milljörðum Bandaríkjadala í byggingu verksmiðju í Texas, þar sem setja á saman nýjan pallbíl, Tundra, sem er væntanlegur á markað snemma á næsta ári. En vegna samdráttar í byggingu nýrra húsa og hækkandi olíuverðs hefur orðið til þess að samdráttur hefur verið í sölu pallbíla á undanförnum mánuðum.