Nýjustu sölutölur bera með sér að samdrátturinn sem framundan er í bifreiðasölunni verði snarpur, að sögn greiningardeildar Glitnis. Eftir eitt sölumesta ár sögunnar í fyrra þegar bifreiðasalan fór í fyrsta sinn í sögunni yfir 18 þúsund virðist sem salan í ár ætla að verða tæplega fimmtungi minni.

?Sveiflur í bifreiðakaupum ráða miklu um þróun einkaneyslu frá einum tíma til annars," segir greiningardeildin og bendir á að um þriðjungur af vexti einkaneyslu á því hagvaxtartímabili sem staðið hefur síðustu þrjú ár verið vegna aukningar í innflutningi og sölu á nýjum fólksbifreiðum. Þá má rekja um 11% af viðskiptahallanum til bifreiðakaupa.

Afleiðing minni bílasölu mun það koma fram í minni umsvifum fyrirtækja sem í greininni starfa, minni einkaneyslu og minni viðskiptahalla.

Bílasala vísbending um framhaldið

?Breytingar í sölu bifreiða er einnig ein af fyrstu vísbendingunum um hvort framundan sé stöðnun, samdráttur eða vöxtur þar sem væntingar heimilanna er stór drifkraftur í þessari sölu. Bifreiðasala var til dæmis eitt af því fyrsta sem tók við sér við upphaf undangengins þriggja ára hagvaxtarskeiðs," segir greiningardeildin.

Eins og fyrr segir ber bifreiðasalan merki þess að framundan sé samdráttarskeið í neyslu almennings. ?Mikill vöxtur í innflutningi og nýskráningu bifreiða á fyrstu þrem mánuðum ársins hefur nú snarlega snúist í samdrátt. Þannig fór vöxturinn í bílasölu upp í 86% í mars miðað við sama mánuð í fyrra en snerist skyndilega í samdrátt upp á 18% í apríl. Í þessu samhengi skiptir nokkru máli að páskar voru í apríl í ár en í mars í fyrra. Engu að síður sýna sölutölur fyrir fyrstu vikur maímánaðar einnig samdrátt í sölu frá því í sama mánuði í fyrra," segir greiningardeildin.

Skynsemi

Sveiflur í bifreiðakaupum eru þó ekki alslæmar því þær bera með sér merki um skynsama hegðun neytenda í fjármálum. ?Kaup á bifreiðum hafa reynst mikil á tíma þegar gengi krónunnar hefur staðið óvenju hátt. Heimilin hafa nýtt sér tækifærið og keypt bifreiðar á útsöluverði og með þeim hætti byggt upp flutningskerfi á hagstæðu verði," segir greiningardeildin.

Meðalaldur bifreiðaflotans hefur lækkað á þessu tímabili og var í lok síðastliðins árs um 8 ár. Fjöldi bifreiða hefur einnig hækkað þannig að nú eru fleiri bifreiðar hér á landi á móti íbúafjölda en áður hefur mælst eða um einn á hverja tvo íbúa.