Vikulegar siglingar færeyska skilafélagsins Smyril Line Cargo milli Þorlákshafnar, Þórshafnar í Færeyjum og Rotterdam hófust fyrir rétt rúmum mánuði og segir Linda Björg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins viðtökur viðskiptavina hafi verið vonum framar.

Segir hún innflutninginn með skipi félagsins Mykines, vera að mestu í formi almennrar vöru, bíla og ýmis konar tækja, en út hafi aðallega verið fluttur fiskur, en einnig Tesla bílar á leið í viðhald í Hollandi að því er segir í Morgunblaðinu. „Þær fara til Hollands og koma svo aftur til baka,“  segir Linda en hún segir innflytjendur bíla almennt hafa tekið þessu vel.

„Þetta er þrælskemmtilegt verkefni. Við erum ekki búin að vera lengi en þetta hefur gengið vonum framar og það er gaman að finna viðbrögðin á markaðnum. Það leggur af stað héðan á miðnætti aðfaranótt laugardags og kemur svo að morgni föstudags viku síðar. Það þarf stífa áætlun til að ná þessu og heilt yfir hefur það gengið snurðulaust fyrir sig hingað til.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa bæjaryfirvöld í Ölfusi lagt mikla áherslu á að bjóða lóðir fyrir fólk og fyrirtæki í bænum sem eru að flýja hátt húsnæðisverð í borginni. Þess utan hafa staðið yfir miklar hafnarframkvæmdir vegna komu ferjunnar, og hefur meðal annars Norðurvararbryggjan verið fjarlægð og höfnin dýpkuð.

„Þá er svo gaman að sjá hvað það er mikið í gangi í Þorlákshöfn. Maður sér það niðri á höfn að það er mikið um að vera alla vikuna og ekki síst á föstudögum þegar skipið er að koma og fara.“