Lögfræðisvið Háskólans á Bifröst hefur hlotið styrk að fjárhæð € 167.193 ( um 25 milljónir íslenskra króna) í gegnum evrópsku Erasmus+ áætlunina, fyrir verkefnið „Development of a Blended Learning Approach to a Joint Degree in Business and Law“.  Verkefnið heitir á íslensku „Þróun blandaðra kennsluhátta fyrir sameiginlega gráðu í viðskiptalögfræði“.

Fram kemur í tilkynningu að um er að ræða tveggja ára samstarfsverkefni milli lögfræðisviðs Háskólans á Bifröst, lagadeildar Háskólans í Árósum og lagadeildar Dyflinarháskóla (University College Dublin). Markmið verkefnisins er að þróa blandaðar kennsluaðferðir í lögfræði, þar sem staðnámi og fjarnámi er beitt jöfnum höndum. Skólarnir stefna að því að bjóða uppá sameiginlega meistaragráðu á sviði viðskiptalögfræði og auka samstarf skólanna.

Samstarfið miðar að þróun aðferðafræði við kennslu lögfræði í blönduðu námi. Byggt verður á reynslu Háskólans á Bifröst af nýrri tegund lagakennslu, en lögfræðisvið skólans tók upp vendikennslu á nýliðnu skólaári og mun kenna lögfræði í blönduðu námi frá og með haustinu 2015. Starfsfólk þessara þriggja lagadeilda mun starfa náið saman á meðan verkefninu stendur.

Háskólinn á Bifröst hafði frumkvæði að umsókn rannsóknarstyrksins og mun sviðsstjóri lögfræðisviðs, Helga Kristín Auðunsdóttir, stýra verkefninu.