Runólfur Ágústsson rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst og Fang Minglun, starfandi rektor háskólans í Shanghai, undirrituðun nú fyrir stundu að viðstöddum forseta Íslands og kínverskum ráðamönnum samning um víðtækt samstarf háskólanna tveggja og er undirritun samningssins liður í opinberri heimsókn forseta Íslands til Kína sem nú sendur yfir. Bifröst hefur undanfarin þrjú ár unnið að þessum samningi en skólinn leggur mikla áherslu á samstarf og samskipti við háskóla í Asíu og er leiðandi á því sviði hérlendis.

Samningurinn er um víðtækt samstarf skólanna tveggja varðandi kennslu, rannsóknir og ráðstefnuhald auk þess Bifröst og Shanghaiháskóli munu skiptast á kennurum og senda á milli sín nemendur bæði í grunnámi og á meistarastigi. Gert er ráð fyrir að næsta vor verði 15 nemendur frá Bifröst í Shanghai og að tugir kínverskra nemenda muni nema á Bifröst næstu misseri og ár. Hér er um að ræða viðamesta samstarfssamning sem íslenskur háskóli hefur gert í Asíu og endurspeglar hann sterka áherslu Bifrastar á samstarf við Asíuríki og þá framtíðarmarkaði sem þar er að finna fyrir íslenskt viðskiptalíf. Þess má geta að nokkrir japanskir nemendur hafa stundað nám á Bifröst undanfarin ár.

Háskólinn í Shanghai er fjölmennasti háskóli þessarar fjölmennu borgar sem er viðskipta- og fjármálamiðstöð Kína en tæplega 60 þúsund nemendur eru skráðir við skólann og hefur hanh af stjórnvöldum þar í landi verið skilgreindur sem einn að lykilháskólum Kína. Þess má geta að um 50 aðrir háskólar eru í Shanghai. Samningur Bifrastar við þennan öfluga háskóla er mikil lyftistöng fyrir alþjóðastarf Viðskiptaháskólans en tæplega helmingur nemenda á Bifröst tekur hluta af námi sínu til BS gráðu við erlenda samstarfsháskóla og er það hæsta hlutfall í háskólum hérlendis.