Runólfur Ágústsson rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst mun undirrita samning um víðtækt samstarf við Háskólann í Shanghai í opinberri heimsókn forseta Íslands til Kína nú í maí. Bifröst hefur undanfarin þrjú ár lagt mikla áherslu á samstarf og samskipti við háskóla í Asíu og er leiðandi á því sviði hérlendis. Sem dæmi um þetta má nefna að um 30 nemendur hafa síðustu misseri stundað nám við samstarfsskóla Bifrastar í Kína og Japan. Nú á vorönn eru 7 nemendur frá Bifröst við nám í háskólanum í Shanghai auk 2 í Viðskiptaháskólanum í Otaru í Japan.

Samningurinn, sem undirritaður verður að viðstöddum forseta Íslands hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, fjallar um víðtækt samstarf skólanna tveggja um kennslu, rannsóknir og ráðstefnuhald auk þess Bifröst og Shanghaiháskóli munu skiptast á kennurum og senda á milli sín nemendur bæði í grunnámi og á meistarastigi. Gert er ráð fyrir að næsta vor muni um 10 kínverskir nemendur stunda nám sitt á Bifröst en að þá verði um 15 nemendur frá Bifröst í Shanghai. Þegar árið eftir er gert ráð fyrir allt að 30 kínverskum nemendum á Bifröst. Hér er því um að ræða viðamesta samstarfssamning sem íslenskur háskóli hefur gert í Asíu og endurspeglar hann sterka áherslu Bifrastar á samstarf við Asíuríki og þá framtíðarmarkaði sem þar er að finna fyrir íslenskt viðskiptalíf. Þess má geta að nokkrir japanskir nemendur hafa stundað nám á Bifröst undanfarin ár.

Háskólinn í Shanghai er stærsti og virtasti háskóli þessarar fjölmennu borgar sem er viðskipta- og fjármálamiðstöð Kína en um 60 þúsund nemendur eru skráðir við skólann sem hefur af stjórnvöldum þar í landi verið skilgreindur sem einn að aðalháskólum Kína. Þess má geta að um 50 aðrir háskólar eru í Shanghai. Samningur Bifrastar við þennan öfluga háskóla er mikil lyftistöng fyrir alþjóðastarf Viðskiptaháskólans en þess má geta að tæplega helmingur nemenda á Bifröst tekur hluta af námi sínu til BS gráðu við erlenda samstarfsháskóla og er það langhæsta hlutfall skiptinema í íslenskum háskóla segir í tilkynningu frá Bifröst.