Sala hjá bresku verslunarkeðjunni Big Food Group (BFG) dróst saman um 3,5% í desember síðastliðnum. Innan BFG er meðal annars Iceland verslunarkeðjan en þar nam sölusamdrátturinn 3,1%. Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að sérfræðingar telja að lítið úrval hjá Iceland verslununum skaði þær í samkeppninni við Tesco og Asda verslunarkeðjurnar sem eru meðal stærstu verslunarkeðja Bretlands, en þær hafa að undanförnu aukið vöruframboð sitt og bjóða nú einnig upp á aðrar vörur en matvörur.

"Aukið vöruframboð Tesco og Asda hefur valdið því að um jólin nýttu neytendur sér ferðina í verslanirnar til þess að kaupa jólagjafir um leið og verslað var í jólamatinn. Iceland leggur hins vegar áherslu á frystar matvörur en af þeim sökum hefur salan dregist saman. Markaðshlutdeild Tesco hefur aukist töluvert að undanförnu og var 28,7% í byrjun desember og hafði aukist um 2,2% síðustu þrjá mánuði þar á undan. Markaðshlutdeild Iceland er aðeins 2,2% og hafði dregist saman um 0,1% á sama tíma. Tesco virðist því vera að sækja í sig veðrið á heimamarkaði, en þess ber að geta að Tesco er stærsti viðskiptavinur Bakkavarar og skiptir gott gengi Tesco því Bakkavör miklu máli," segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er einnig bent á að eins og flestum er kunnugt gerði Baugur nýlega yfirtökutilboð í Big Food Group og var Baugur tilbúinn að kaupa BFG á 95 pens á hlut eða 326 milljón pund. Gengið verður frá kaupunum þann 11.febrúar fáist leyfi frá breskum stjórnvöldum og samþykki fjárfesta, en stjórn BFG hefur nú þegar mælt með tilboði Baugs. Líklegt er talið að Baugur selji Iceland verslunarkeðjurnar á næstunni, en um 30% af heildarsölu BFG kom frá Iceland á síðasta fjárhagsári félagsins.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.