Gengi brasilíska realsins og evrunnar er of sterkt, samkvæmt Big Mac vísitölu The Economist. Vísitalan byggir á kenningunni um jafnvirðisgengi og reynir að leita svara við því hvort gjaldmiðlar séu „rétt“ skráðir miðað við kaupmátt. Kenningin gerir ráð fyrir að gengi gjaldmiðla leiti í kaupmáttarjafnvægi til lengri tíma litið. Ákveðin upphæð í einu landi á að hafa sama kaupmátt í öðrum löndum þegar búið er að breyta um gjaldmiðil, samkvæmt kenningunni.

The Economist miðar við verð á Big Mac hamborgurum McDonalds í ríkjum heimsins og miðar aðra gjaldmiðla við dollarinn.

Í nokkurn tíma hefur Big Mac vísitalan bent til að kínverska júanið sé undirverðlagt, gengi þess eigi að vera sterkara. Nýja vísitalan sem er birt í dag virðist hinsvegar benda til þess að júanið sé nú nær sínu „rétta gildi“ en áður, miðað við dollarann.

Samkvæmt vísitölunni eru norska og sænska krónan, svissneski frankinn og brasilíska realið of sterkar gagnvart dollarnum.

„Rétt gengi“ íslensku krónunnar er ekki kannað, enda fæst enginn Big Mac hamborgari á Íslandi.

Big Mac vísitala The Economist .