*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Erlent 18. maí 2021 09:40

Big Short fjárfestir veðjar gegn Tesla

Vogunarsjóður Michael Burry, sem var leikinn af Christian Bale í The Big Short, hefur keypt sölurétt á 800 þúsund hlutabréf í Tesla.

Ritstjórn

Fjárfestirinn Michael Burry, sem öðlaðist frægð fyrir veðja gegn undirmálsveðlánum (e. subprime mortgages) fyrir fjármálahrunið árið 2008, er nú kominn með augað á rafbílaframleiðandann Tesla. Bloomberg greinir frá.

Vogunarsjóðurinn Burry, Scion Asset Management, átti sölurétt á rúmlega 800 þúsund hlutabréf í Tesla þann 31. mars síðastliðinn. Sölurétturinn gefur sjóðnum rétt á að selja hlutabréf í Tesla fyrir tiltekna dagsetningu í framtíðinni.

Hlutabréf Tesla náðu hámarki sínu í 883 dölum á hlut þann 26. janúar síðastliðinn eftir að hafa hækkað um nærri 700% á rúmu ári. Gengið hefur fallið um 35% síðan hámarkinu í janúar, m.a. vegna minnkandi sölu í Kína og skort á aðföngum í framleiðsluna.   

Þetta er ekki í frysta sinn sem afstaða Burry gegn háu hlutabréfaverði Tesla verður opinber en hann greindi frá skortstöðu á bílaframleiðandann í tísti í desember síðastliðnum. Burry hvatti einnig Elon Musk, stofnanda Tesla, til að gefa út nýtt hlutafé á meðan gengið væri í „fáranlegum“ hæðum.

Burry var leikinn af Christian Bale í óskarsverðlaunakvikmyndinni The Big Short sem var byggð á samnefndri bók Michael Lewis frá árinu 2008.

Stikkorð: Tesla The Big Short Michael Burry